Heilsueflandi samfélag

Heilsueflandi samfélag er heildræn nálgun sem Embætti landlæknis vinnur að í samstarfi og samráði við sveitarfélög, opinberar stofnanir, frjáls félagasamtök.

Meginmarkmið Heilsueflandi samfélags er að styðja samfélög í að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa.

 

Leiðarljós Heilsueflandi samfélags:

  • Virk þátttaka samfélagsins í heild, þ.m.t. hagsmunaaðila úr öllum geirum.
  • Starfið byggir á bestu þekkingu og reynslu á hverjum tíma.
  • Valda ekki skaða (DO NO HARM)
  • Jöfnuður til heilsu með almennum aðgerðum og aðgerðum sem taka mið af þörfum viðkvæmra hópa.
  • Sjálfbærni, leggja áherslu á að skipuleggja starf og árangur til lengri tíma litið.

 

Í Heilsueflandi samfélagi er heilsa og líðan allra íbúa í fyrirrúmi í allri stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum og allir geirar hafa hlutverk. Unnið er með áhrifaþætti heilbrigðis og vellíðanar (sjá mynd Áhrifaþættir heilbrigðis og vellíðanar) s.s. félags-, efnahags- og menningarlegar aðstæður, manngert og náttúrulegt umhverfi til að skapa sem ákjósanlegastar aðstæður í lífi, leik og starfi fyrir fólk á öllum æviskeiðum. Holla valið þarf að vera eins auðvelt og kostur er s.s. að hreyfa sig, borða hollt, rækta geðið og ástunda grænan lífsstíl á sama tíma og spornað er gegn áhættuhegðun s.s. neyslu tóbaks, áfengis og annarra vímuefna. Stuðningur við starf Heilsueflandi leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla er mikilvægur liður í starfi Heilsueflandi samfélags.

Markvisst lýðheilsustarf í Heilsueflandi samfélögum

Sveitarfélög hafa sjálf frumkvæði að því að gerast Heilsueflandi samfélag. Skilyrðin fyrir þátttöku eru að bæjar-/sveitarstjóri skrifi undir umsókn um þátttöku, skipaður sé þverfaglegur stýrihópur fyrir starfið sem tryggir aðkomu lykilhagsmunaaðila að því og sérstakur tengiliður er tilnefndur. Með undirskrift samnings um Heilsueflandi samfélag einsetja sveitarfélög sér að vinna markvisst lýðheilsustarf, í samræmi við markmið og leiðarljós Heilsueflandi samfélags með stuðningi frá Embætti landlæknis og öðrum sem að starfinu koma.

Í stýrihópnum fyrir Heilsueflandi samfélag í Flóahreppi eru eftirfarandi fulltrúar:

Formaður og verkefnastjóri:

Örvar Rafn Hlíðdal

Íþrótta- og heilsufræðingur

Sími: 823 5855

Netfang: orvar@floaskoli.is 

 

Arndís Sif Arnarsdóttir, fulltrúi Krakkaborgar

Bryndís Eva Óskarsdóttir, fulltrúi sveitarfélags

Markús Ívarsson, fulltrúi eldri íbúa

Sigún Helgadóttir, fulltrúi Flóaskóla